Formaður ÆRR (Æskulýðsráð ríkisins) efndi til fundar um málefni ráðsins fyrir skömmu. Var mikið þarfaþing og ekki vanþörf að fara yfir þessi mál. Sannast sagna þá erum við íslendingar eftirbátar nágrannaþjóða okkar í þessum efnum. Ástæður þess má rekja í löngu máli en slíkt verður ekki gert á þessum vettvangi a.m.k. ekki í bili. Eitt er þó algerlega víst að við þurfum lagalega umgjörð um æskulýðsmál sem m.a. byggir á faglegum sjónarmiðum.
Einn af þeim stjórnmálamönnum sem hefur látið sig þessi mál varða er Oddný Sturludóttir sem sækist eftir 2. sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Þeir stuðningsmenn Samfylkingarinnar sem láta sig málefni æskunnar varða ættu að gefa henni gaum því þar fer ötull baráttukona. Ég átti því láni að fagna að vinna með henni ásamt öðru góðu fólki að stefnumótun á sviði æskulýðsmála en eins og þeir vita sem tilheyra þessum geira þá er löngu tímabært að koma á rammalöggjöf í þessum mikilvæga málaflokki. Tillaga um slíkt liggur fyrir og ekki síst fyrir tilstilli Oddnýjar – hvet því Samfylkingarfólk í höfuðborginni eindregið til þess að veita henni stuðning.
Sama á við um ágæta stjórnmálamenn úr öðrum flokkum. Mér dettur í hug Sóley Tómasdóttir í VG sem sækist eftir 1. sæti á lista flokksins í Reykjavík. Sóley hefur mikla reynslu í þessum geira og hugmyndir sem falla vel að velferðarmálum æskunnar. Sóley er virk í starfi Félagi fagfólks í frítímaþjónustu m.m.
Málefni æskunnar eru mikilvæg og ekki síst á tímum eins og þessum – hvet fólk, hvar í flokki sem það stendur, eindregið til þess að kjósa, í prófkjörum, fólk sem hefur þetta mikilvæga málefni í öndvegi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli