fimmtudagur, 4. september 2003

5.000 gestir

5.000 gestir
Dagskinnan hefur reynst mér vel. Gestakomur langt umfram það sem ég gerði mér hugmyndir um. Ekki veit ég hvaðan allt þetta fólk kemur en ljóst að það eru ekki bara félagsmenn STH sem lesa dagskinnuna.

Dagskinnan er praktísk því formenn verklýðsfélaga búa oft við mikið ónæði, stundum eðli málsins samkvæmt en stundum út af smærri málum sem gjarnan mættu bíða næsta dags. Á hitt er að líta að fólk byggir alla sína afkomu á starfinu og þeim kjörum sem þar fást. Allt rask hversu lítið sem það er veldur ugg í brjósti fólks og af þeim sökum kjósa félagsmenn að bregðast við í skyndingu og hafa samband við forsvarsmenn félagsins, sem er auðvitað eðlilegt.

Dagskinnan sem kemur upplýsingum á framfæri frá sjónarhorni formanns STH, gerir það að verkum að fólk getur fengið fréttir nánast í beinni útsendingu og milliliðalaust. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að mikið af þeim upplýsingum sem félagsmenn sækjast eftir " hér og nú" eru til staðar og einfalt mál að nálgast þær og allt rask minnkar.

Dagskinnan er því afar hagnýt tæki, ekki bara sem upplýsingamiðill því hún er ekki síður öflugt baráttutæki og málgagn í verkalýðsbaráttunni. Það hef ég svo sannarlega reynt á umliðnum mánuðum varðandi mál eins og skipulagsbreytingar á bæjarskrifstofum. Í þeim efnum sem og öðrum hef ég tamið mér að vera hreinskiptin og hef ekki veigrað mér við að segja frá hlutum eins og þeir hafa komið mér fyrir sjónir sem formanni. Hvort einhverjum stjórnmálamanninum þyki lítið til koma , læt ég mig engu varða. Það er einfaldlega skylda formanns stéttarfélags að benda á það sem betur má fara og standa vörð um hagsmuni sinna félagsmanna.

Að láta móðan mása um málefni líðandi stundar þess á milli er ágætt og sennilega meinholt fyrir sálartetrið. Held því ótrauður áfram og þakka þeim sem stundum hafa sent mér línu um eitt og annað varðandi Dagskinnuna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli