sunnudagur, 15. október 2006

Veit ekki hvort ég er í framboði

En hitt veit ég að Gunnar vinur minn Svavarsson er í framboði í prófkjöri Samfylkingarinnar og það í forystusæti. Og því fagna ég enda Gunnar drengur góður, dugmikil stjórnmálamaður, málefnalegur og maður úrræðasamur í meira lagi. Ég hef sem formaður STH og sem (fv) embættismaður átt töluverð samskipti við Gunnar á liðnum árum. Þar hafa komið við sögu bæði „sætu og súru eplin” og málefni ekki alltaf verið einföld né auðleyst, sérstaklega í verkalýðsmálum. Mál hafa samt sem áður nánast undantekningalaust leysts á farsælan hátt.

Ég þekki Gunnar einnig úr foreldrastarfi hjá FH en dætur okkar eru í tilvonandi gullaldraliði félagsins. Á þeim vettvangi er Gunnar í essinu sínu, nema þegar kappleikir fara fram því þá fer Gunnar á hliðarlínuna og heldur sig fjarri öðrum foreldrum, hefur hátt og gefur stúlkunum það sem hann kallar „knattspyrnufræðilegar ráðleggingar”. Held að dömurnar taki svona hæfilegt mark á honum en virði viljan fyrir verkið.

Og það er fleira gott fólk í framboði. Kristín Guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðfélags Íslands og samstarfsmaður minn í stjórn BSRB er einnig góður kostur, hún er dugnaðarforkur sem hefur með stórfelldri baráttu tekist að hefja hin stórlega vanmetnu störf sjúkraliða til vegs og virðingar. Tryggvi Harðarson vinur minn býr yfir víðtækri reynslu og þekkingu. Tryggvi var farsæll bæjarstjóri á Seyðisfirði auk þess sem hann vann vel sem bæjarfulltrúi hér í Hafnarfirði. Hitt er annað mál að þetta er góður hópur fólks sem gefur kost á sér í prófkjörinu þannig að listinn verður aldrei annað en sterkur.

Hvort ég sé í framboði og þá væntanlega til áframhaldandi setu sem formaður STH segi ég fátt um á þessu stigi. Hitt er annað mál að ég hef fengið fjölmargar áskorannir um slíkt víða úr félaginu og frá fólki sem látið hefur sig félagið varða og verið virkt í baráttunni, en því er heldur ekki að leyna að á formanninn hafa líka verið sendir einhverjir litlir úrtölu púkar en þeir eru fáir og segja lítið af viti eins og ku verða háttur púka.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli