laugardagur, 7. október 2006

Ný launanefnd

Sé það á heimasíðu sambands íslenskrar sveitarfélaga að verulegar breytingar hafa orðið á launanefnd sveitarfélaga, en ný nefnd var kosin á landsþingi Sambandsins í lok september. Kannski bara eðlilegt þar sem tilvera nefndarinnar hékk á bláþræði vikum saman s.l. vetur. Ekki að óskekju þar sem að samningar við bæjarstarfsmenn voru komnir í sögulegt lágmark eftir að borgin samdi við sitt fólk s.l. haust. Nefndin var í öndunarvél vikum saman og tíminn nýttur til þess að gera eins lítið og hægt var. Í stað þessa að samræma starfsmat bæjarstarfsmanna við starfsmat Reykjavíkurborgar, sem hefði leyst málið að fullu, þá var gripið til einhverra þeirra flóknustu úrræða sem menn muna eftir og sem náðu einungis til hluta starfsmanna sveitarfélaganna.

Í eina tíð voru það hinir kjörnu bæjarfulltrúar sem mynduðu launanefnd sveitarfélaga en þeir sjást vart í nefndinni í seinni tíð. Sennilega hentar almennur kjörþokki illa í störfum nefndarinar. Það eru aðrir eiginleikar eða önnur tegund kjörþokka sem gilda í sambandi við launanefnd sveitarfélaga en varðandi allar aðrar nefndir á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Og kannski er það þess vegna sem að nefndarmenn koma og fara, stoppa stutt við eins og farþegar á hverri annari járnbrautarstöð.

Hitt svo annað mál að ég hef alla tíð talið tilvist nefndarinnar hvíla á afar veikum lögfræðilegum grunni. Geta sveitafélög/ bæjarfulltrúar afsalað sér með öllu ákvarðanarétti í sambandi við launamál þeirra bæjarstarfsmanna sem þeir eru m.a. kosnir til þess að ákveða? Nefndin hegðar sér eins og hún sé formlegt stjórnvald, sendir tilskipanir út og suður. Starfsmenn nefndarinnar telja sig þar með yfir starfmenn launadeilda sveitarfélaganna hafna og beita þar ákveðnu verkstjórnar- eða boðvaldi.

Ef við gefum okkur og ef svo einkennilega vildi til að þetta gríðarlega fullnaðarumboð til nefndarinnar standist lög, sem mér vitanleg hefur aldrei verið kannað af óháðum aðila, þá vekur sérstaka athygli hvernig með hina sk. jafnræðisreglu er farið og hún mölbrotin sbr. samninga Reykjavíkurborgar og samninga sveitarfélaganna, sem og ýmsa aðra samninga sem launanefndin hefur gert sem nefnd í umboði sveitarfélaganna og á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Öll alvöru fyrirtæki viðhafa alvöru starfsmannastefnu. Í starfsmönnum bæjarfélaga eru fólgin gríðarleg verðmæti. Það er auðvitað algerlega úr takti að einhver að mestum hluta óreynd nefnd og eða starfsmenn hennar úti í bæ fari með alræðisvald í jafn mikilvægum málum og hér um ræðir. Nefnd sem lýtur nánast í öllu og einum viðhorfum þeirra bæjarfélaga sem hafa lítin eða engan metnað gagnvart starfsfólki sínu.

Framsýn sveitarfélög eiga að mynda sér eigin stefnu – Losa sig undan þessu fyrirkomulagi og ægivaldi launanefndar sveitarfélaga sem stendur allri alvöru starfsmannaþróun hjá sveitarfélögunum fyrir þrifum – Gera þetta sjálf með stæl og með því hugarfari að gera gott bæjarfélag ennþá betra.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli