föstudagur, 22. september 2006

Borað í nefið í 7.300 daga

Það voru margir hissa á mér þegar fór úr ágætu starfi hjá ÍTR og tók við starfi æskulýðs- og tómstundafulltrúa Hafnarfjarðar. Kofi sem gekk undir nafninu Æskó, gömul lítil verbúð uppi á Flatahrauni sem bænum hafði áskotnast við gjaldþrot fiskverkunar Einars Gíslasonar h/f var allur sá “metnaður” sem bæjarfélagið lagði í málaflokkinn æskulýðsmál. Staðan var sú að samkvæmt könnun Dr. Þórólfs Þórlindssonar kom í ljós að hafnfirsk ungmenni sóttu skipulagðar tómstundir í mun meira mæli utan bæjarfélagsins en innan. Málaflokkurinn var rústir einar og skýrslan alger áfellisdómur um “starfsemina”.

Ekki ætla ég að þakka mér þann árangur sem við höfum náð í æskulýðsmálum en hann kom ekki af sjálfum sér og ég hef svo sannarlega notið þess að hafa starfað með góðu fólki. ÍTH hefur innleitt ýmsa nýbreytni hér á landi, nýja starfsþætti, samþætt málefni ungmenna og staðið fyrir víðtæku samstafi allrar þeirra aðila sem hafa með börn og unglinga að gera. Þetta hefur verið gríðarleg vinna, oft í miklum mótvindi og stundum við takmarkaðan skilning ráðamanna. Það hafa margir lagst á eitt í góðum hópi starfsmanna ÍTH og árangur er ótvíræður. Samkvæmt könnunum Rannsóknar og greiningar e.h.f. þá telja um 60 % af hafnfirskum ungmennum sig vera fastagesti í félagsmiðstöðvum bæjarins (mæta einu sinni í viku eða oftar).

Ekki verður annað skilið af umfjöllun Fjarðarpóstsins 21/9 á bls 3 “Var æskulýðsfulltrúinn óþarfur?” en að undirritaður hafi verið í langvarandi iðjuleysi árum saman enda starfið óþarft. Þessu megi m.a. finna stoð í, segir tiltekinn bæjarfulltrúi, að óþarft hafi verið að ráða afleysingu meðan undirritaður var vetrarlangt í námsleyfi fyrir nokkrum árum?

Ekki virðist viðkomandi bæjarfulltrúi sem þessu heldur fram vera alveg með á nótunum því í umræddu námsleyfi undirritaðs leysti sá ágæti drengur, þ.v. forstöðumaður Vitans, Geir Bjarnason æskulýðsfulltrúa af og í starf forstöðumanns Vitans fór Jóhanna Flekenstein annar afburðar góður starfsmaður ÍTH

Veit það ekki - kannski finnst einhverjum stjórnmálamönnum það óþarft að hafa einhverja verkstjórn í jafn mikilvægum málaflokki og æskulýðsmál eru. Menn verða þá að byggja þá skoðun á einhverjum rökum og ekki síst á hvernig málum er raunverulega fyrir komið.
Annars er bara verið að gera lítið úr störfum fólks sem a.m.k. í eigin hugskoti telur sig hafa verið að gera ágæta hluti og hefur lagt á sig ómælt erfiði og vinnu til þess að svo mætti verða.

Hlutverk og mikilvægi stjórnmálamanna felst m.a. í því að skapa forsendur. Ef ekkert er að gert í þeim efnum þá hendir ekkert. Án forsendna verða allar gerðir og ræður stjórnmálamanna eins og sagan af nýju fötum keisarans, innihaldslausar. Ef forsendur eru m.a. þær að verkstjórnendur séu óþarfir þá er auðvitað á litlu að byggja. Ergo, sú mikla þekking og reynsla sem starfsmenn búa yfir leitar einfaldlega annað, í aðrar forsendur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli