fimmtudagur, 11. desember 2003

Leggja 400.000 kallinn snarlega inn aftu

Leggja 400.000 kallinn snarlega inn aftur
hjá Kaupþingi er mín ráðlegging til forsætisráðherra. Hann er algerlega einn af genginu og á auðvitað að hafa peningana sína á vísum stað eins og hitt sjálftökuliðið. Það er auðvitað með eindæmum að ríkistjórn sem lagst hefur í kerfisbundin slagsmál við sárafátæka öryrkja, ríkistjórn sem státar af láglaunapólitík sem á sé vart hliðstæðu þó svo að víða væri leitað, skuli gera sérlega veglegan starfslokasamning við forsætisráðherra og fjármagna ýmsar pólitískar hrókeringar í leiðinni.

Undir 100 þús
Á sama tíma og þessi sjálftökubísness á sér stað í þinginu þá eru félagar okkar í ASÍ að hefja kjarasamningaviðræður. Í þeirra röðum er fólk sem hefur vel innan við 100 þús laun á mánuði. Samningaviðræðum við þessar aðstæður er að sjálfsögðu sjálfhætt og öllum kröfugerðum pakkað niður enda úr öllum takti við fyrirliggjandi frumvarp. Kjarasamningar eru því í uppnámi og vandséð á hvernig stöðugleika verður viðhaldið þegar að s.k. landsfeður ganga fram með slíku fordæmi sem höfum orðið vitni af.

Reykingar i sprengjugeymslu!
Sá sem þetta ritar er ekki í nokkrum vafa að þessi gjörð þingsins var svipaðs eðlis og þess sem kveikir sér í sígarettu í sprengigeymslu. Menn ná nokkrum smókum en síðan fer allt í háaloft. Almenningi er misboðið í hverju málinu á fætur öðru undanfarið og ástandið í íslensku þjóðfélagi er eldfimt og lítið má út af bera svo ekki fari allt í bál og brand.

Bara tveir möguleikar
Það er því bara tvennt í stöðunni og það er að landsfeður gangi fram fyrir skjöldu með góðu fordæmi og taki af einhverju viti á þeim brýnu málum er varða hag almennings í þessu landi.
Ef ekki þá er hinn flöturinn sá að staðan splundrast og það litla sem eftir er að þjóðarsáttinni verður lagt til hliðar og að vinnandi fólk í þessu landi takist á við þau öfl í þjóðfélaginu sem hafa sópað til sín auðæfum langt umfram það sem þeim ber. Kostir verkalýðshreyfingarinnar engir aðrir en átök, ekki af vilja heldur hreinni nauðsyn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli