miðvikudagur, 23. apríl 2003

Hef verið í miklum önnum undanfarið

Hef verið í miklum önnum undanfarið. Er í báðum aðferðarfræaðakúrsunum auk NKN kúrsins. Sem gerir það að verkum að mikið púsluspil upphefst við að koma öllu heim og saman í misserislok . Lítið má útaf bera varðandi verkefnaskil annars rekst allt á annars horn. Ég er að skila stóru verkefni í Eigindlegum , þar hef ég verið að rannsaka forsögu að stofnun Æskulýðsráðs Reykjavíkur . Stórmerkilega saga og mun lengri en ég gerði mér grein fyrir í upphafi. Í Megindlegum eru mikil verkefnaskil auk þess sem prófað er í fræðunum þ. 6. maí n.k. Margir hafa efasemdir um gildi prófa í fjarnámi og efast um tilgang þeirra. Bent er á að í Háskólanum í Bifröst eru verkefnaskil meginregla mats í fjarnámi.

Ég hef verið að útfæra nánar hugmynda mína um vef um sögu félagsmiðstöðva. Er að velta fyrir mér lay-outinu . Vefurinn er ekki sérstaklega ætlaður unglingum en er frekar fræðilegs eðlis og þarf því að bera þess merki hvað varðar útlit. Vefir ætlaðir ungu fólki eru oft ofhlaðnir ýmsum fídusum sem ekki passa fyrir eldri kynslóðina og virka jafnvel fráhrindandi. Sama á við með látlaust útlit gagnvart unglingum, ef ekkert sérstakt á sér stað fljótlega þá leitar athyglin annað. Vefur af því tagi sem ég áforma höfðar því lítið til unglinga enda sennilega jafn spennandi í þeirra augum og skólasagan. Því er stefnan sett á fremur látlaust útlit með þægilegum leturgerðum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli