mánudagur, 13. desember 2010

Lærð stórslysaviðbrögð

Í Fréttablaðinu í dag er viðtal við Reynir Vignir framkvæmdastjóra PwC en fyrirtækið „endurskoðaði “ Glitni og Landsbankann. Fyrirtækið er harðlega gagnrýnt í tveimur skýrslum norskra og franska sérfræðinga um starfsemi bankanna á árunum 2006 og fram að falli þeirra í október 2008.

Viðtal þetta er skólabókardæmi um lærð stórslysaviðbrögð fyrirtækis í miklum vanda. Engu svarað efnislega en fjöldi mistæknilegra atriða slegið fram. Markmiðið að vinna tíma, komast í var og vonast eftir að öll töf minnki bæði pressu á fyrirtækið sem og vægi efnislegrar umræðu. Held að þetta mál sé þess eðlis að slíkt virkar ekki. Ef svo slysalega vildi til að svo yrði þá á hin íslenska deild PwC eftir að eiga við móðurfyrirtækið sem mun taka á málum út frá ýtrustu eiginhagsmunum sem m.a. gætu falið í þér að „fórna“ hinum íslenska hluta. Ekki veit ég hvernig það fer en hitt er öllum ljóst að íslenska endurskoðunarstéttin í heild geldur fyrir við- og vinnubrögð af þeim toga sem forsvarsmenn PwC á Íslandi sýna. Hlut endurskoðenda í hruninu verður að rannsaka eins og annað því tengdu. Því fyrr því betra. Viðtalið fylgir hér (feitletrun eru mín):

"Segir vinnugögn PwC flókin yfirferðar
„Gögn endurskoðenda er ekki einfalt að skoða og þau gögn sem sérstakur saksóknari fékk frá PwC eru að mestu á rafrænu formi en að hluta á pappír. Okkur finnst að áður en dómur verði felldur yfir störfum starfsfólks PwC sé nauðsynlegt að útskýringar þeirra á eigin vinnugögnum komi fram,” segir Reynir Vignir, framkvæmdastjóri PwC á Íslandi.“

Hann leggur áherslu á að vegna trúnaðar sé ekki hægt að birta útskýringarnar á hvaða vettvangi sem er og væntir þess að við rannsókn sérstaks saksóknara verði kallað eftir útskýringum og upplýsingum frá starfsfólki PwC sem kom að endurskoðun bankanna. Enginn starfsmaður hafi verið kallaður til skýrslutöku og ekki leitað eftir sjónarmiðum þeirra við rannsóknina.

Reynir fékk skýrslurnar afhentar á fimmtudag í síðustu viku og hefur haft knappan tíma til að skoða þær. „Skýrslurnar eru talsvert umfangsmiklar. Við þurfum að skoða þær nákvæmlega áður en við ákveðum á hvaða vettvangi við getum svarað þeim.

Í fljótu bragði sjáum við í skýrslunum báðum að skýrsluhöfundar setja fram mikið af fyrirvörum og benda á það í sérstökum köflum að þeir höfðu takmark að aðgengi að gögnum og að þeir skoðuðu ekki öll gögn, meðal annars ekki frumgögn úr bönkunum sjálfum. Jafnframt virðist okkur ljóst að tilvísanir til viðeigandi reglna um reikningsskil og endurskoðun séu veikar en frekar byggt á eftiráskoðun skýrsluhöfunda og jafnvel tilfinningum,“ segir hann.

Reynir, af skýrslunum að dæma brást PwC skyldum sínum. Hvað finnst þér? „Vinnu endurskoðenda verður að skoða miðað við þær aðstæður sem uppi voru þegar vinnan fór fram, en ekki með eftiráskoðun miðað við gjörbreyttar aðstæður. Við teljum að endurskoðendur félagsins hafi staðið vel að endurskoðun bankanna á sínum tíma og við munum sýna fram á það. Skýrslurnar eru ekki hinn endanlegi sannleikur um störf endurskoðenda.“"

Engin ummæli:

Skrifa ummæli