Svo brá við fyrir margt löngu, að loknum kosningum í bæjarfélagi einu, sem hér verður ekki nefnt á nafn, að allmargir flokksmenn þóttu hafa staðið sig vel í stólaburði og öðru flokkstarfi í aðdraganda kosninganna. Kosningabaráttan hafði gengið afar vel og flokkurinn því með pálmann í höndunum að þeim loknum. Eftir kjör í nefndir bæjarfélagsins þar sem dugmiklir flokksmenn komu til starfa þá var eitt vandamál óleyst. Einhverjir einn eða tveir afar vinnusamir flokksmenn komust ekki að í hinu hefðbundna nefndarkerfi, sem var ekki gott og taldist með öllu óhæft innan flokksins.
Þáverandi bæjarstjóri, pólitíkus en auk þess afbragðs embættismaður, dó ekki ráðlaus og leysti málið að hætti Salómons konungs. Viðkomandi voru ráðnir til "starfa" hjá bæjarfélaginu og settir inn á gang einn ónotaðan í gömlu frystihúsi sem bæjarfélagið hafði eitt sinn rekið en stóð nú að mestu leyti autt. Orðhagur starfsmaður bæjarins og skáldmæltur í meira lagi nefndi ganginn umsvifalaust "gæludýragarðinn" og gekk hann eftirleiðis undir því nafni meðal starfsmanna bæjarins.
Viðkomandi starfsmenn gengu ganginn fram og til baka dag út og dag inn og fóru jafnvel víðar með möppur, umslög og önnur nauðsynleg fylgigögn ef því var að skipta . Ekki voru margir sem vissu hver umsýslan var, sennilega úttektir af einhverjum toga, en kosturinn ótvíræður sá að ekkert af þessum viðfangsefnum hafði áhrif á hefðbundna stjórnsýslu bæjarfélagsins, sem gekk sinn vanagang enda margur reyndur embættismaðurinn þar fyrir á fleti. Með þessu vannst tvennt. Í fyrsta lagi þá gátu flokksmenn andað léttar því þeirra bestu menn voru komnir til starfa í einni eða annarri mynd og í öðru lagi að ráðningarnar settu ekki annars ágætt stjórnkerfi bæjarins úr skorðum, sem var lykilatriði.
Fyrir þá stjórnmálamenn sem "lenda í því" að standa að pólitískum ráðningum þá má þetta fyrirkomulag vera þeim til "fyrirmyndar". Því miður eru dæmi í annars ágætu embættimannakerfi hins opinbera að settir séu til "verka" í hefðbundinni embættismennsku einhverjir flokkshestar sem standa síðan mikilvægum málflokkum fyrir þrifum árum saman saman vegna fákunnáttu sinnar á því faglega- og eða sérfræðilega viðfangsefni sem viðkomandi eru ráðnir til þess að sinna en hafa enga burði til.
Slíkt kostar samfélagið stórfé og mun meira en bara laun viðkomandi þegar að upp er staðið. Velti því fyrir mér hvort ekki er hægt að opna hálfopinberan pólitískan gæludýragarð að hætti hins ónefnda bæjarfélags meðan að kaupin gerast enn með þessum hætti á eyrinni. Umsýslustofnunn Ríkisins væri hæfilega virðulegt nafn, stofnun sem reka mætti undir fjárlagaliðnum "framlag til stjórnmálaflokka" og þar mætti sameina á einn stað dugandi flokksmenn allra flokka sem nauðsynlegt þykir að umbuna með pólitísku fóstri hjá hinu opinbera? Hitt er svo annað mál hvort við sem skattborgarar eigum að sætta okkur við pólitískt "handlang" af þessu tagi? Held og vona að slíkir tímar verði fyrir bí fyrr en seinna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli