Sótti Svía heim um daginn. Þar er pólitíkin að komast á fullt enda þingkosningar í haust. Áhugi á pólitíkinni öllu meiri en hérlendis. Af því fer maður ekki varhluta enda umræður komnar á fulla ferð. „Go morgon“ þáttur sænska sjónvarpsins stendur fyrir ágætis umfjöllun, umræðan er hörð en málefnaleg sem er nokkurt nýmæli fyrir íslenskan áhugamann um stjórnmál.
Sem endranær telja hægri menn mikilvægast að lækka skatta enn frekar og á sama tíma telja kratarnir mjög mikilvægt að gæta hófs í þeim efnum enda þjóni skattalækkanir helst hagsmunum þeirra sem meira eiga sín í samfélaginu. Margt kunnuglegt í umræðunni. Ungum frambjóðanda hægri manna varð það á að telja Monu Salin formann sænskra jafnaðarmann keyra „tobleronepólitík“! og vísað þá til þess er hún notaði opinbert greiðslukort í eigin þágu. Sá hinn sami var vart búin að sleppa orðinu þegar að hann var minntur á að menntamálaráðherra „hans manna“ hefði ekki greitt afnotagjöld útvarps og sjónvarps um langt skeið og að annar ráðherra hans flokks hrökklaðist einnig frá völdum þegar að upp komst að viðkomandi réð barnapíu í „svarta vinnu“.
Á íslenskan mælikvarða er þetta „smotterí“ en í Svíþjóð höfðu þessi mál afgerandi áhrif. Þó svo að Mona Shalin hafi að einhverju leyti náð sér á strik eftir að hafa sagt af sér öllum helstu vegtyllum í sænskri pólitík fyrir rúmum áratug þá mun þessi Toblerone pakki fylgja henni alla tíð og hefur í raun gert það að verkum að hún er fjarri þeim pólitíska styrk sem hún gæti búið yfir ef þetta mál hefði ekki komið upp. Sama á við um hina ráðherranna sem eru trausti rúnir og í raun búnir í pólitík.
Þegar að maður fer að bera þessi mál saman við íslenskan raunveruleika þá verður veröldin absúrd. Ekki veit ég hve mörg hundurð þúsund þúsund Tobelronepakkar eru á sveimi í einni eða annarri mynd í íslenskri pólitík og eða í viðskiptalífinu. Svo má böl bæta sem bent sé á annað verra er lykilatriði á Íslandi. Og svo er auðvitað það "að engin er sekur fyrr en að sekt er sönnuð", sem er einhverskonar sér íslenskt skálkaskjól. Ekki minnist ég þess að þessir sænsku stjórnmálamenn hafi verði sérstakt viðfangefni dómskerfisins? En svo má vel vera, en kjarni málsins hins vegar sá að þessir stjórnmálamenn voru algerlega rúnir trausti löngu áður en dómskerfið hafði kveðið upp nokkurn dóm.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli