Innlendar og erlendar rannsóknir sýna að þátttaka í skipulögðu félags- og tómstundastarfi undir handleiðslu hæfra leiðbeinenda dregur úr líkum á hvers kyns áhættuhegðun, félagslegri einangrun og skerðingu á lífsgæðum. Ávinningur af því að skerða tómstunda- og félagsstarfsemi þar sem einstaklingar eru virkir þátttakendur er því enginn. Mikill ávinningur yrði hins vegar að því að styrkja slíka starfsemi. Undirrituð benda á 24.grein Mannréttindayfirlýsingar SÞ en þar segir „Hverjum manni ber réttur til hvíldar og tómstunda“.Samkvæmt lögum um öldrunarþjónustu segir í 13.grein.
„Þjónustumiðstöðvar aldraðra sem eru starfræktar af sveitarfélögum til að tryggja eldri borgurum félagsskap, næringu, hreyfingu, tómstundaiðju, skemmtun og heilsufarslegt eftirlit. Þjónustumiðstöðvar geta starfað sjálfstætt eða í tengslum við aðra þjónustu sem aldraðir njóta“.
Einnig viljum við benda á að Ísland er aðili að Barnasáttmála SÞ. Samkvæmt 31. grein sáttmálans viðurkenna aðildarríkin rétt barns til að stunda tómstundir, leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess. Auk þessa skuldbinda aðildarríki sig til að virða og efla rétt barns til fullrar þátttöku til tómstundaiðju og stuðla að viðeigandi og jöfnum tækifærum. Við skulum ekki gleyma að hinn rétti mælikvarði á stöðu þjóðar er hversu vel hún sinnir börnum sínum. Mikilvægi tómstunda- og félagsstarfs verður ekki metið til fjár á tímum sem þessum og aldrei hefur verið meiri þörf fyrir faglega starfsemi á þessum vettvangi því skorum við á sveitarfélög landsins að standa vörð um þennan mikilvæga málaflokk.
F.h. nemenda og kennara á Tómstunda- og félagsmálafræðibraut MVS Háskóla Íslands,
Helga Þórunn Sigurðardóttir nemendafulltrúi - hths8@hi.is
Árni Guðmundsson námsbrautarstjóri - arni@hi.is
Engin ummæli:
Skrifa ummæli