miðvikudagur, 31. desember 2008

Frábært framtak hjá talsmanni neytenda

Birti hér orðrétt tilmæli talsmanns neytenda ( http://talsmadur.is/ ) vegna nafnleysingja í vefheimum.

"Raunhæf æruvernd sé tryggð á bloggsíðum
Þess hefur verið farið á leit við mbl.is að tryggt sé að rétthafi bloggs sé rétt skráður og að unnt sé að fá upp gefið nafn þess sem bloggar undir nafnleynd ef sýnt er fram á lögvarða hagsmuni af því. Með þessu vill talsmaður neytenda tryggja raunhæfa æruvernd og auka neytendavernd.

Morgunblaðið
Ingvar Hjálmarsson
Árvakur hf. Hádegismóum 2 110 Reykjavík
Reykjavík, 30.12.2008
Tilv. 2008/0015 - 2.1 g
GT

Tilmæli frá talsmanni neytenda (TN 08-3)


Efni: Raunhæf æruvernd sé tryggð á bloggsíðum
Að gefnu tilefni, að teknu tilliti til sjónarmiða sem talsmaður neytenda hefur leitað eftir hjá mbl.is, í samræmi við 1. mgr. 71. gr. og 1. málslið 2. mgr. 73. gr.
stjórnarskrárinnar og meginreglur laga nr. 57/1956 um prentrétt varðandi ábyrgðarröð, og í ljósi dómsúrlausna varðandi ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um æruvernd, beinir talsmaður neytenda eftirfarandi tilmælum vinsamlegast til mbl.is sem rekstraraðila bloggþjónustu gagnvart neytendum í því skyni að stuðla að aukinni neytendavernd:
Framvegis verði tryggt að rétthafi bloggs sé rétt skráður hjá mbl.is - t.d. með bréfi í kjölfar skráningar á lögheimili tilkynnts rétthafa bloggs.
Sé boðið upp á nafnleynd rétthafa bloggs verði þeim, sem sýna mbl.is fram á lögvarða hagsmuni af því, veittar upplýsingar um fullt nafn og kennitölu rétthafa bloggs eða - í tilviki lögaðila - ábyrgðarmanns þess. Einnig er farið fram á að í skilmálum um blogg á mbl.is verði eftirleiðis upplýst um að rétthafi eða ábyrgðarmaður bloggs kunni að bera lagalega ábyrgð á ummælum nafnlausra notenda í athugasemdakerfi þess.
Virðingarfyllst,

talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason. "


Frábært framtak hjá talsmanni og ættu allir þeir aðilar sem halda úti vefkerfum að tileinka sér þessar reglur, a.m.k. allir þeir sem vilja láta taka mark á sér.

Óska lesendum síðunar farsældar á komandi ári

Engin ummæli:

Skrifa ummæli