mánudagur, 24. mars 2008

Ketill Larsen

Brá mér í Tjarnarbíó um síðustu helgi . Erindið að sjá heimildarmynd um vin minn Ketill Larsen. “Heimildarmynd” veit það ekki – myndi frekar kalla þetta persónulega sýn kvikmyndargerðarmannana á Larsen, ágæt sem slík en nær engan veginn utan um jafn margbreytilegan persónuleika og Ketill er. Um Ketil nægir ekki að gera rúmlega 20 mínútna mynd, hann verðuskuldar alvöru long film eins og Kaninn segir og sennilega fleiri en eina. Larsen 1, 2 og 3 myndi sennilega ná utan um viðfangsefnið.

Ketill vann árum saman í æskulýðsmálum sem hann gerði af stakri prýði og margur vel virkur unglingurinn á honum mikið að þakka og fullvíst að margt ungmennið komst sæmlega til manns m.a. með þátttöku í góðu starfi Ketills á þeim vettvangi.

Málefni þeirra sem minna mega sín hafa ávallt verið Katli hugleikin. Hann hefur árum saman heimsótt fólk á sjúkrahúsum og stofnunum, einstæðinga og fólk sem hvergi á höfði sínu að halla. Hann var hér á árum áður duglegur við að skemmta án endurgjalds á alskyns stofnunum og svona mætti lengi telja.

Larsen bindur ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn. Og slíku fólki er erfitt að gera skil í fáum orðum eða stuttri mynd. Ketill og hans mörgu ásjónur þurfa veglegri umgjörð og umfangsmeiri en svo. Sagan um hrekklausan mann sem leitast ávallt við að ganga til góðs og láta gott af sér leiða er þemað. Væri fínt efni í bók – sem þarf að skrifa.

1 ummæli: