miðvikudagur, 26. mars 2008

Á hjólastól í grindarhlaup !

Ríkustu fátæklingar í heimi (sbr. skrif Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar) búa á Íslandi og þá munar lítið um að taka á sig hækkað vöruverð, sem nú þegar er með því hæsta sem þekkist. Var einungis 63% yfir meðalverði EU landa. Nú eru það sk. ytri aðstæður sem gera það að verkum að verslunin og heildsala, sem reyndar er að mestu leyti á sömu höndum, neyðist til þess að hækka vöruverð um ca 20 %. Undir þetta taka fjölmiðlar með réttu og skiptir þar í engu hverjir eiga viðkomandi miðla enda fjölmiðlar að sjálfsögðu óháðir – ekki satt?

Í síðustu hækkunarhrinu í kring um lækkun matarskattarins þá voru það birgjarnir sem orsökuð hækkað vöruverð að sögn verslunarinnar. Argumentsjónir og útfærsla á röksemdum vegna hækkana eru aðdáunarverðar og sennilega unnar af okkar færustu ímyndarfræðingum.

Ekki verður heyrt á ummælum fulltrúa viðskiptalífsins þessa dagana að nokkurt rými sé til hófsemdar í álagningu þrátt fyrir 63% forskot umfram það sem aðrar þjóðir telja hæfilega álagningu. Þetta spilverk gengur ekki upp með góðu móti nema allar hagstærðir í þjóðfélaginu lúti sama kerfi. Eins og alltaf áður þá er öllu velti yfir á launafólk sem ekki býr við vísitölutryggingar eins og öll önnur fjármál á íslandi.

Íslenskir launþegar eru því eins og maður í hjólastól sem skráður hefur verið til keppni í grindarhlaupi. Dæmdur til að tapa og það áður en hlaupið hefst. Alvöru hagstjórn hlýtur að byggja á einhverskonar jafnræði sem felst í því að allar hagstærðir lúti sömu reglum . Ef menn vilja viðhalda vísitölubindingu sem einhverskonar hagstjórnartæki þá er auðvitað helber vitleysa að skilja laun út undan. Það gerir ekkert annað en að kerfisbundið minnka hlut launa. Varla getur það verið markmiðið – ... eða hvað?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli