föstudagur, 22. desember 2006

Evran

Það kemur ekki á óvart að bankarnir vilji gjarnan gera upp í evrum. Tilgangurinn auðvitað sá að forðast eigið vaxtaokur á íslenska markaðinum og síversnandi stöðu krónunnar. Bankarnir vita manna best hvernig á að ávaxta eigið fé og hvernig mál þróast. Nú færa menn ofurgróðann strax yfir í öruggan gjaldmiðil.

Lagði það til fyrir margt löngu þegar ég var í verkalýðsmálum að laun yrðu greidd út í evrum svo þetta íslenska stórkarla Matador, sem íslenskt efnahagslíf er orðið, myndi ekki bitna á launafólki. Á því var engin áhugi, enda ekki gert fyrir að almúginn sé annað en viðskiptafóður íslenskra mógula af ýmsum toga. Viðvarandi okurvextir og ofurtryggð útlán, láglaunapólitík , hátt vöruverð, ofur íbúðaverð og handónýtt tryggingakerfi er það „frelsi” sem almenningur býr við.

Það er eitthvað sem ekki er að gera sig – sennilega á íslenkur almúgi „engar góðar götur” í íslenska Matadorinu. Það þarf að jafna leikinn. Það verður ekki gert menn fákeppni og samráði þeirra sem þegar eiga meira en nóg. Kannski þarf að stækka leikvöllinn og hvar er þetta „frelsi” sem stjórnmálamenn eru að tala um? Af hverju geti ég ekki haft öll mín viðskipti við minn gamla banka í Gautaborg sem ég átti í ágætum viðskiptum við á námsárum mínum þar í borg.

Þurfum við að ganga í EB til að losna undan þessu íslenska „frelsi”. Hefur hvarflað að manni en mál að þessari ósanngirni og vitleysu linni.

Óska lesendum síðunnar gleðilegra jóla.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli