sunnudagur, 26. október 2003

Loksins einn sem var skotinn

Loksins einn sem var skotinn
Fæ mikið magn af pósti frá fólki sem lent hefur í mikilli ógæfu. Yfirleitt hefjast bréfin á "My former husband general XXXXX sem var keyrður niður, fórst í flugslysi eða var handtekinn og lést í fangelsi, varð fyrir sprengjuárás, hvarf sporlaust og hefur ekki sést síðan.
Agaleg tíðindi sem því miður virðast engan endi ætla að hafa því nú nýverið fékk ég fregnir af einum til viðbótar sem yfirgefið hafði þessa jarðvist með byssukúlu í brjóstið.

Hinar afar sorgmæddu
fjölskyldur hafa þó alflestar náð að bera harm sinn í hljóði (ef frá er talin hin afar sorglega umfjöllun um jarðvistarskipti ástvinanna í upphafi bréfanna) og tekið til við að ná hinum stórfelldu eignum hins framliðna úr hinu virðulega Nígeriska eða Gahaniska bankakerfi sem ku sýna mikla óbilgirni nema ef vera vildi að einhver góðhjartaður vesturlandabúi vildi vera svo vænn að þiggja nokkra milljónir til að hjálpa örlítið við að koma nokkrum milljörðum úr landi .

Erindin
því ekki beint ósk um hluttekningu og aðstoð í sorgarferlinu - lífið verður að halda áfram þó að einn og annar generálinn fari yfir móðuna miklu - hins vegar óþarfi að láta aurana fara líka - ætlum við að bera ábyrgð á því að ekkjan og fjölskylda hins mikla XXXXX þurfi að borða hrísgrjónavelling það sem eftir er, eins og sauðsvartur almúginn?

Nú eru góð ráð dýr.
Var bent á eitt sem virkar þokkalega. Fékk mér sem sagt forritið I hate spam og viti menn sorgarsögum frá Nígeríu og Ghana hefur fækkað verulega - getur verið að þessi fjölmörgu og margþættu áföll séu bundin fáum fjölskyldum? Eða eru bara svona fáar email adressur í Afríku? Eða er einhver að plata mann? Veit það ekki?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli