þriðjudagur, 2. júní 2009

Núna eru kjarasamningar lausir...

...og sami söngurinn í vinnuveitendum sem endranær. Ekki einu sinni staða til að efna gerða samninga. Minnist þess hins vegar ekki að nokkurn tíma hafi verið ráðrúm til eins eða neins og var ég þó um langa hríð í þessu baksi sem formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar og stjórnarmaður í BSRB. Hin grjótharða íslenska láglaunapólitík ríður ekki við einteyming og sorglegast er að launanefnd sveitarfélaga tók að sér það viðvik, fyrir margt löngu, fyrir hönd vinnuveitenda í landinu, að vera helsti talsmaður þessarar mannfjandsamlegu launastefnu. Stefnu sem fylgt hefur verið af fullri einurð árum saman, eindrægum vilja og algerlega óháð efnahagsástandi .

Meira að segja í „góðærinu“ sáluga var ekki ráðrúm til hækkana sem nú hefur augljóslega leitt til enn meiri vandakvæða fyrir almenning en ella hefði verið. Sanngjörn laun hefðu auðvitað leitt til þess að neysla hefði byggt á eigin sparnaði en ekki lántökum eins og raun varð í samfélagi „góðærisins“ þar sem bankamenn fenguð sérstök aukalaun fyrir að moka út lánasamningum vegna of gnóttar fjár í bankakerfinu.

Hærra hlutfall launa hefði auðvitað slegið á ofurgróða (og þenslu) margra fyrirtækja eða í það minnsta deilt ágóðanum út á sanngjarnari máta en raunin varð. Hins vegar hafa íslenskir kjarasamningar því miður ekki snúist um réttláta og sanngjarna skiptingu tekna samfélagsins – um það hefur fjarri því verið sátt og íslensk kjarabarátta hefur því einkennst af samfeldum átökum og vantrausti gagnvart vinnuveitendum.

Þjóðarsáttin sáluga var í boði verkalýðshreyfingarinnar – raunhæf og ábyrg leið a.m.k. hvað varðaði þátt verkalýðshreyfingarinnar í henni. Samningar og hugsun sem hélt ekki og varð græðgisvæðingunni að bráð , hinnar sk. brauðmolahagfræði sem kennd er við frjálshyggjuna. Í stað þess að byggja upp innri stoðir samfélagsins með margvíslegum hætti og nýta ávinning þjóðarsáttarinnar í þágu samfélagsins alls þá varð raunin allt önnur og sú sem við okkur blasir nú. Og svo halda menn að hin grjótharða íslenska láglaunapólitík, þetta félagslega böl, sé líkleg til þess að koma íslensku efnahagslífi í gang?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli