miðvikudagur, 29. október 2008

Morgunblaðið má mun sinn fífil fegurri

Leiðari Morgunblaðsins í dag um áfengi og auglýsingar er afar furðulegur.

“Á Íslandi er bannað að auglýsa áfengi. Engu að síður er áfengi mikið auglýst á Íslandi. Lögin hafa í raun verið til málamynda og það hefur verið látið refsilaust að auglýsa áfengi. Þar til fyrir helgi að Karl Garðarsson, fyrrverandi ritstjóri Blaðsins, var dæmdur til að greiða eina milljón króna í sekt fyrir að birta áfengisauglýsingar.
Í sératkvæði Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttardómara, sem vildi láta málið niður falla, kom fram að í samantekt á ætluðum áfengisauglýsingum í íslenskum blöðum og tímaritum á tímabilinu 1. maí 2005 til 2. júní 2006 hefðu greinst 999 tilvik. Með öðrum orðum hefðu lögin að því er virðist ítrekað verið þverbrotin án þess að lögregla eða ákæruvald lyftu litla fingri. Nema til þess að bregðast við auglýsingunum í Blaðinu.
Hér er eitthvað að. Áfengisauglýsingar eru daglegt brauð. Meira að segja áfengisverslun ríkisins kynnir þjónustu sína reglulega. Auglýsingar þar sem varað er við því að drekka eins og svín eru sýndar í sjónvarpi og kvikmyndahúsum. Það á sem sagt að drekka í hófi. Og auglýsandinn getur útvegað veigarnar til hófdrykkjunnar. Auglýsingarnar eru rækilega merktar honum. Við réttarhöldin var einnig vísað í Vínblaðið, kynningarblað ÁTVR, þar sem finna mætti áfengisauglýsingar. En líklegast er engin ástæða til að fara í mál við ríkið. Ríkið predikar hvernig umgangast eigi vín og auglýsir sjálft sig í leiðinni.
Tvískinnungurinn á bak við framkvæmd laganna, sem banna birtingu áfengisauglýsinga, er alger. Dómurinn yfir Karli Garðarssyni er vitaskuld í samræmi við lög. Lögin eru bara notuð það sjaldan að þegar þeim er beitt jaðrar það við réttarbrot.” (Ritstjórnargrein MBL 26/10 08)

Undarlegur leiðari og ljóst að hinn ónefndi höfundur hefur ekki kynnt sér mál sem skyldi. Dæmi um slík er eftirfarandi:

"... það hefur verið látið refsilaust að auglýsa áfengi. Þar til fyrir helgi að Karl Garðarsson, fyrrverandi ritstjóri Blaðsins, var dæmdur til að greiða eina milljón króna í sekt fyrir að birta áfengisauglýsingar." segir í ritstjórnargrein. Þetta er einfaldlega rangt það hafa all nokkrir dómar fallið en alltof fáir miðað við fjölda afbrota. Karl Garðarson er ekkert sérstak "fórnarlamb" framkvæmdastjórar ýmissa fyrirtækja í áfengisbransanum njóta þessa vafasama "heiðurs" sem og Reynir Traustason þv Mannlífs ritstjóri svo nokkur dæmi séu nefnd.

"Það keyra allir á 200 km hraða og af hverju er ég bara sektaður" eru rök sem ekki eru samboðin hvorki Morgunblaðinu né öðrum. Auðvitað á að gefa út kærur í þessum málum eins og gangvart öðrum augljósum lögbrotum. 0.001% eru kærðar - hvar er jafnræðisreglan gagnvart öðrum brotamönnum á ekki að gefa út 999 kærur þar sem sannarlega liggur fyrir mat a.m.k. eins Hæstaréttardómara að um brot sé að ræða. Ef það er bara nóg að glæpum á þá að hætta að kæra?

Bann á tóbaks- og áfengisauglýsingum lúta heilbrigðis og velferðarsjónarmiðum en ekki grjóthörðum viðskiptasjónamiðum. Tóbak (þ.m.t. "ávaxtatóbak" sbr "léttöl"? og Mogginn sá ástæðu til að “kynna” um daginn sem nýjan trend unga fólksins) hefur ekki verið auglýst en ætti samkvæmt nákvæmlega sömu röksemdum og menn í áfengisbransanum nota um áfengisauglýsingar að vera leyfilegt. Það vill engin sbr hörð og afar neikvæð viðbrögð gagnvart umfjöllum Moggans um "ávaxtatóbak" og sama á við um áfengisauglýsingar, foreldrasamfélagið er á móti þessu og börn og unglingar eiga lögvarin rétt til þess að vera laus við þennan gengdarlausa áróður - Fjölmiðlar , auglýsingastofur, áfengisframleiðendur og áfengisinnflytjendur fara sínu fram , virða lögin að vettugi og taka ýtrustu viðskiptahagsmuni fram fyrir rétt barna og unglinga og lög landsins - Er Morgunblaðið blað hinna ýtrustu viðskiptahagsmuna jafnvel þó að það sé á skjön við íslensk lög ? Auglýsingasiðferði er það óþekkt hugtak þegar þetta sjálfsagða velferðarmál æskunnar er til umfjöllunar?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli