laugardagur, 14. júní 2008

Af sértækri greindarskerðingu?

Åbrå dómurinn sænski gekk út að það að skyni bornir menn auglýstu ekki nokkrar léttöls flöskur mánuðum saman, sem síðan var ekki lögð nokkur áhersla á að koma á markað að öðru leiti og voru nánast ófáanlegar. Merkingar á léttölinu voru í öllum megin atriðum algerlega eins og á bjórframleiðslu fyrirtækisins. Gjörðir fyrirtækisins og forstjórans sem ábyrgðarmanns voru því túlkaðar sem útúrsnúningar á lögum þar í landi um bann við áfengisauglýsingum og viðkomandi dæmdur samkvæmt því.

Hinn kosturinn í málinu var utan seilingar dómskerfisins sem hefði verið að meta forstjórann sænska nautheimskan og illa kunnandi enda kostnaður við auglýsingar á léttölinu illfánalega stjarnfræðilega langt yfir ágóða af sölu þess. Ekki man ég nákvæmar tölur en ljóst var að auglýsingakostnaður þessara örfáu flaska nam marghundraðföldu útsöluverði.

Hér á landi falla forstjórar umvörpum í sömu gryfju. Forstjórarnir "merkja" vörur sínar eins og gert var í Ráðstjórnarríkjunum hér í eina tíð og sennilega mun verr. Fyrirtæki sem að öllu jöfnu gera í vörumerkingum skýran greinarmun á sykrlausum gosdrykkjum og sykruðum setja áfengið í nákvæmlega eins umbúðir og léttölið. Með þeirri einu undantekningu að í efnisinnihaldi stendur 5,0% í stað 2,25% en með svo litlu letri að helst er að nýta stækkunargler til þess eins að sjá hvers eðlis varan er.

Hvað þetta varðar þá vona ég að dómskerfið taki á þessu og ekki síst í þágu þeirra sem þetta stunda. Þangað til verða viðkomandi taldir verulega vankunnandi, neytendafjandsamlegir eða jafnvel tregir til hugans . Dómskerfið er sem betur fer byrjað að taka á þessu eins og meðfylgjandi dómur fjallar um að hluta. Útúrsnúningar sem byggja á þeirri grunnforsendu að menn geri sér upp sértæka greindarskerðingu í þeim eina tilgangi að snúa út úr löggjöf um bann við áfengisauglýsingum er eitthvað sem ekki er boðlegt en dæmi um hve lágt menn eru til í leggjast í þágu ítrustu viðskiptahagsmuna.

Íslenskur "léttölsauglýsandi" fór svona út samskiptum sínum við dómskerfið íslenska:

“Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 5. janúar 2007. Kvaðst ákærði hafa verið ritstjóri tímaritsins Fótboltasumarið 2006 er það hafi verið gefið út. Væri ákærði þeirrar skoðunar að ekki væru um ólöglegar áfengisauglýsingar að ræða í tímaritinu. Um væri að ræða auglýsingar á léttöli sem selt væri í verslunum á Íslandi. Í auglýsingunum kæmi skýrt fram að um áfengislausan bjór væri að ræða. Að því er auglýsingar á XXXXXX varðaði bar ákærði að auglýsingarnar hefðu komið frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Markaðsstjóri Ölgerðarinnar, Valgarð Sörensen, hafi verið í sambandi við ákærða með auglýsingarnar. Ekki kvaðst ákærði vita hvaðan texti á auglýsingarnar væri kominn. Þá kvaðst ákærði ekki vita hver hefði séð um uppsetningu og hönnun á auglýsingunum. Greitt hafi verið fyrir auglýsingarnar af hálfu Ölgerðarinnar. Ekki kvaðst ákærði reiðubúinn að gefa upp hve mikið hafi verið greitt. Ekki kvaðst ákærði viss um hvort XXXXXX væri seldur sem óáfengur bjór í verslunum á Íslandi, þó svo hann héldi að svo væri. Að því er varðaði auglýsingar á YYYYY bjór bar ákærði að einstaklingur á vegum Vínkaupa ehf. hafi sent ákærða auglýsingu fyrir bjórinn. Auglýsingin hafi verið tilbúin eins og hún hafi birst í blaðinu. Fulltrúar blaðsins hafi verið í sambandi við Gunnlaug Pál Pálsson sölustjóra hjá Vínkaupum ehf. Sá texti er birst hafi, hafi komið frá Vínkaupum ehf. en verið bætt inn á auglýsinguna. Greitt hafi verið fyrir auglýsinguna, en ekki kvaðst ákærði reiðubúinn að upplýsa hve mikið greitt hafi verið fyrir hana. Ákærði kvaðst telja að unnt væri að fá óáfengan YYYYY bjór í verslunum á Íslandi, án þess þó að hann þyrði að fullyrða það. Tilgangur með þessum auglýsingum hafi verið að kynna viðkomandi vörur og knattspyrnuleiki. Sem ritstjóri og ábyrgðarmaður tímaritsins bæri ákærði ábyrgð á birtingu auglýsinganna. Hafi þær átt að skapa jákvæða kynningu á léttöli greindra vörumerkja. Þær hafi verið bornar undir ákærða til samþykkis fyrir birtingu.” Sjá nánar http://domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=S200800463&Domur=2&type=1&Serial=1&Words=

Minnir mann óneitanlega á senu úr Kardimommubænum þegar að Jesper reynir að telja Bastían bæjarfógta trú um að brauðið sem hann rændi hafi sjálft farið í vasa hans!


Engin ummæli:

Skrifa ummæli