föstudagur, 6. febrúar 2015
Skessuhorn - Æskan er okkar fjársjóður
Þessi grein birtist í Skessuhorni 4. febrúar 2015 - Vangaveltur um fagmennsku á sviði æskulýðsmála í Borgarnesbyggð af gefnu tilefni.
Mikilvægasta verkefni hvers samfélags er uppeldi æskunnar hverju sinni. Samfélagið er flókið og margþætt og það er engin ein stofnun sem nær utan um uppeldi æskunnar í heild og í raun óraunhæft að gera kröfur til þess að svo sé. Til þess að vel megi fara þá þarf heildrænt skipulag sem byggir á fagmennsku og þeirri bestu þekkingu sem fyrir hendi er hverju sinni. Allt sem fram fer í samfélaginu kemur fram og myndgerfis í hinum margvíslegu félagslegu athöfnum mannsins, er grundvöllur og samnefnari fyrir þroska einstaklingsins sem á sér stað í samfélagi við aðra. Samfélagið og félagslegar athafnir þess eru grundvöllur uppeldis. Mikilvægastir eru foreldrarnir og fjölskyldan síðan koma stofnanir og eða starfsemi í nær umhverfi barna og ungmenna. Það þarf þorp til þess að ala upp barn og í því ljósi byggja flest sveitarfélag umgjörð sína, umfang og stefnu.
Við Menntavísindasvið (MVS) Háskóla Íslands er starfrækt Námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræðum (NTF). Fjöldi fólks hefur lokið BA prófi frá brautinni. Aðsókn í námið er með miklum ágætum og er brautin sú eining innan MVS sem vex hve hraðast. Nýútskrifaðir tómstunda- og félagsmálfræðingar eiga að öllu jöfnu auðvelt með að fá vinnu. Starfsvettvangur tómstunda- og félagsmálafræðinga er afar fjölbreyttur, s.s. félagsmiðstöðvar, frístundaheimili, íþróttafélög, grunnskólar, leikskólar, félagssamtök, á vettvangi forvarnarmála, meðferðarstofnanir, þjónustumiðstöðvar, félagstarf aldraðra og skrifstofur íþrótta- og tómstundamála m.m. Meginfræðasvið í tómstunda- og félagsmálafræði eru tómstundafræði, sálfræði, félagsfræði, félagsuppeldisfræði, siðfræði, verkefna- og viðburðarstjórnum ,útivist og ekki síst fagmennska og vettvangsnám. Lögð er áhersla á að nemendur verði færir um að stjórna, skipuleggja, framkvæma og meta tómstundastarf.
Nýverið var auglýst laust til umsóknar starf í félagsmiðstöðinni Óðal í Borgarnesi og samkvæmt auglýsingunni var óskað eftir starfsmanni með menntun á þessu sviði enda starfið eða störfin augljóslega þess eðlis. Nú brá svo við að eini umsækjandinn sem uppfyllti menntunarkröfur fékk ekki starfið? Slíkt verður að teljast undarlegt og má í raun líkja því við að við grunnskólann í Borgarnesi væru einungis ráðnir leiðbeinendur í stað kennara þó svo að menntaðir kennarar stæðu til boða? Slíkt yrði talið dæmi um metnaðarleysi og einhverskonar fúskvæðingu skólastarfsins. Sama á auðvitað við um hvað varðar ráðningu í jafn mikilvæga starfsemi og þá sem fram fer í félagsmiðstöðvum. Samkvæmt rannsóknum þá eru starfsmenn félagsmiðstöðva þeir aðilar sem ungmenni leita einna fyrst til ef þau eru í vanda. Forvarnarstarfsemi, leitarstarf og fyrirbyggjandi starfsemi félagsmiðstöðva lýtur fag- og fræðilegum forsendum. Slíkt starf er ekki á færi félagslyndra og ágætara ungmenna á menntaskólaaldri . Það er ábyrgðarhlutur af hálfu bæjarfélagsins fela viðkomandi ungmennum starf sem viðkomandi hafa hvorki aldur, þekkingu né menntun til þess að sinna og eða axla þá miklu ábyrgð sem störfum á þessum vettvangi fylgja. Slíkt er einungis gert með fagmennsku í hvívetna hvort sem litið er til einstakra ráðninga eða skipulags málaflokksins í heild. Á slíku hefur verið nokkur brestur ekki bara hvað varðar ráðningu þá sem hér er til umfjöllunar, hún er sennilega einkennandi fyrir stefnu í málflokknum í heild og all fjarri því ágæta starfi er bæjarfélagið stóð fyrir í æskulýðsmálum af myndaskap og fagmennsku til margra ára. Á þeim grunni hefði verið skynsamlegt að byggja í stað þeirra stefnu er sennilega kristallast í þeim ráðningamálum sem hér hafa verið gerð að umtalsefni. Æskan er okkar fjársjóður og það er ábyrgð okkar sem eldri erum að búa henni eins góðar aðstæður og uppeldisskilyrði og frekast er unnt.
föstudagur, 10. október 2014
Áfengi í matvörubúðir - Nei takk
Uppeldisleg
markmið samfélagsins eins og standa vörð um æskuna og búa henni
uppbyggilega umgjörð og heilbrigða uppeldisforsendur eru miklu
mikilvægari viðfangsefni en áfengisala er lýtur ítrustu
viðskiptasjónarmiðum matvöruverslana. Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.
Danir státa af þeim vafasama heiðri að eiga heimsmet í unglingadrykkju. Er einhver ástæða til þess taka upp hér á landi svipað sölufyrirkomulag og þar ríkir? Er það að ganga inn í framtíðina? Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.
Matvöruverslunin á ennþá í hinum mestu brösum með sölu á tóbaki eftir að breytingar voru gerðar á sölufyrirkomulagi þess árið 1996! fyrir 18 árum. "Árangur" algerlega óviðunandi samkvæmt áralöngum könnunum. Börn og ungmenni eigi ekki í neinum teljandi vanda við að kaupa tóbak í verslunum. Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.
Starfsfólk verslana er að stórum hluta ungmenni. 42% ungmenna 16-17 ára sem vinna með skóla starfa í stórmörkuðum og verslunum. Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.
Í greinargerðinni með Bónusvæðingar frumvarpinu í áfengismálum eru kaflar sem nefnast "Meint neikvæð" áhrif á neytendur ef smásala á áfengi er gefin frjáls" og "áhrif á neyslu".
Með öðrum orðum þá viðurkennir greinargerðarskrifari ekki, eða veit ekki af, eða hefur ekki kynnt sér fjölmargar rannsóknir sem sýna glögglega afar neikvæðar afleiðingar af því sölufyrirkomulagi á áfengi er frumvarpið gerir ráð fyrir. Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.
Afstaða landlæknis bæði skynsöm og 100% skýr - Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.
...og svona mætti lengi telja.
Áfengi er ekki matvara - Áfengismál og stefna í þeim málflokki er spurning um velferðar- og lýðheilsusjónarmið, ekki Bónusvæðingu og ítrustu viðskiptahagsmuni.
Sjá ennfremur :
www.foreldrasamtok.is
https://www.facebook.com/foreldrasamtok
Danir státa af þeim vafasama heiðri að eiga heimsmet í unglingadrykkju. Er einhver ástæða til þess taka upp hér á landi svipað sölufyrirkomulag og þar ríkir? Er það að ganga inn í framtíðina? Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.
Matvöruverslunin á ennþá í hinum mestu brösum með sölu á tóbaki eftir að breytingar voru gerðar á sölufyrirkomulagi þess árið 1996! fyrir 18 árum. "Árangur" algerlega óviðunandi samkvæmt áralöngum könnunum. Börn og ungmenni eigi ekki í neinum teljandi vanda við að kaupa tóbak í verslunum. Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.
Starfsfólk verslana er að stórum hluta ungmenni. 42% ungmenna 16-17 ára sem vinna með skóla starfa í stórmörkuðum og verslunum. Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.
Í greinargerðinni með Bónusvæðingar frumvarpinu í áfengismálum eru kaflar sem nefnast "Meint neikvæð" áhrif á neytendur ef smásala á áfengi er gefin frjáls" og "áhrif á neyslu".
Með öðrum orðum þá viðurkennir greinargerðarskrifari ekki, eða veit ekki af, eða hefur ekki kynnt sér fjölmargar rannsóknir sem sýna glögglega afar neikvæðar afleiðingar af því sölufyrirkomulagi á áfengi er frumvarpið gerir ráð fyrir. Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.
Afstaða landlæknis bæði skynsöm og 100% skýr - Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.
...og svona mætti lengi telja.
Áfengi er ekki matvara - Áfengismál og stefna í þeim málflokki er spurning um velferðar- og lýðheilsusjónarmið, ekki Bónusvæðingu og ítrustu viðskiptahagsmuni.
Sjá ennfremur :
www.foreldrasamtok.is
https://www.facebook.com/foreldrasamtok
föstudagur, 21. febrúar 2014
Þú ert rekinn!

Þetta hefur ekki gefist vel eins og dæmin sanna. Að kenna saklausu starfsfólki um nautakjötsleysi í nautakjötsbökum gerði sig ekki. Að verða þrí- eða fjórsaga um einhvern bankaskatt var klaufalegt, að gjör klikka á gagnaöryggi eins og Vodafon gerði er sorglegt, svo ekki sé minnst á, eins og frægt er orðið, leka á viðkvæmum gögnum úr ráðuneyti að virðist af sjálfsdáðum, sem er afleitt. Mörg önnur dæmi mætti nefna af nægu er að taka.
Ástandið er ekki gott. Staðan einfaldlega þessi að viðkomandi munu algerlega óháð efnisatriðum neita eða vísa frá sér öllu sem kallast ábyrgð eða mistök og í engu hvika. Í þessu liggur nokkur vandi og hann þarf að leysa.
Þar sem eru þarfir þar er bísness bendir frjálshyggjan réttilega á og því réttast að nýta aðferðir þeirrar hugmyndafræði við lausn þessa aðkallandi vanda. Það er allt fyrir hendi, hér er tækifæri, eftirspurn og ekki síst djúp þörf. Það er nauðsynlegt að stofna tafarlaust hlutafélag, einhvers konar embætti, í samvinnu Ríkistjórarinnar og Samtaka atvinnulífsins , embætti "rekins" eða embætti "axlanda ábyrgðar". Viðkomandi myndi að öllu jöfnu una hag sínum vel í fálæti t.d. í höfuðstöðvum SA en þegar að á þyrfti að halda myndi axlandinn taflaust mæta þar sem hans er þörf hverju sinni og inna af hendi starf sitt af stakri fagmennsku.
Hann hefði átt að vera í Borgarnesi, sem verkstjóri í nautabökudeildinni, grátandi og viðurkennt mestu mistök lífs síns þ.e. að hafa gleymt að setja nautakjötið út í bökurnar, biðja fólk afsökunar, hann væri bara venjulegur fjögurra barna faðir sem væri að bíða eftir lánaleiðréttingum og sér hefðu orðið á hræðileg mistök. Í kjölfarið hefði forstjórinn svo auðvitað rekið hann því einhver verður á axla ábyrð.
"Axlandinn" hefði einnig verið tilvalin ráðgjafi efnahags- og viðskiptanefndar varðandi bankaskattinn. Í því tilfelli hefði formaður nefndarinnar átt að segja í viðtölum strax og það mál kom upp " Hvað segir þú, er þetta virkilega svona? ég hélt að þessi maður væri fagmaður fram í fingurgóma" og síðan mjög alvarlega "þessi endurskoðandi er algerlega óhæfur". Í kjölfarið hefði axlandinn stigð fram iðrandi og rakið ættartengsl sín við stjórnendur viðkomandi banka og borið fyrir sig mannlegum breyskleikum eins og sívaxandi drykkjuskap samhliða miklum sambúðarvandamálum. Formaðurinn rekið viðkomandi á staðnum með tilþrifum, enda málið alvarlegt og hann því einnig séð til þess að axlandinn yrði sviptur löggildum endurskoðendaréttindum "sínum".
Hann hefði afstýrt miklu klúðri hjá Vodafon. Hlutverk hans þar hefði verið sem virðulegur en tekin "gagnaöryggisstjóri" fyrirtækisins. Hann sem slíkur hefði byrjað á því að flýja land strax eftir að gögnunum var rænt frá Vodafon, hefði samt fljótlega fundist á ódýru hótelherbergi í Kaupmannahöfn. Athyglin fyrst um sinn yrði öll á hinum horfna tæknistjóra sem auðvitað væri sá eini sem kann á þessu skýringar. Með "hvarfinu" vinnst dýrmætur tími, tveir þrír dagar. Ný fundin og aðspurður myndi "tæknistjórinn" fara með tækiorðarommsu sem ekki væri á færi hæfustu sérfræðinga að skilja, en ljóst væri af mæli hans þar sé að finna meginskýringuna en hins vegar geti hann ekki horft fram hjá því að nýi conponeta deilirinn olli straumhverfingu sem ekki var við ráðið og því fór sem fór. Á því bæri hann fulla ábyrgð væri miður sín, sjokkeraður og hefði skroppið til Kaupmannahafnar til þess að öðlast innri ró og átta sig á hvað hefði farið úrskeiðis. Það væri mikill misskilningur og alrangt eins og haldið hafi verið fram að hann væri á flótta. Að þessu sögðu hefði hann verið rekinn enda ljóst að gagnaöryggi var undir hans stjórn afar ábótavant. Forsvarsmenn fyrirtækisins vilja auðvitað ekki hafa svona fólk í vinnu.
En af allra bestu gagni kæmi hann núna þessa daganna sem tilvonandi fyrrverandi fulltrúi í Innanríkisráðuneytinu. "Axlandinn" myndi hringja í DV og játa lekann nafnlaust til að byrja með en strax næsta dag stíga fram og játa allt skýlaust. Lýsa yfir í örvilnan og að vonbrigði við að hafa ekki fengið aðstoðardeildastjórastöðuna í ISP merkingastaðladeild ráðuneytisins hafi verið mikil. Það hafi valdið honum andlegu ójafnvægi og sárri reiði. Til þess að valda yfirmanni ráðuneytisins sem mestum usla þá hafi hann ákveðið, í hefndarskyni, að fyrirmynd Assange, að leka þessum upplýsingum. Hann sæi núna að mannauðsstjórn ráðneytisins væri eitt og réttlætti ekki lekann sem væri annað og öllu alvarlegra mál. Hann vonaði að þessi mistök myndu ekki bitna á honum. Að þessu sögðu yrði hann síðan rekin með skít og skömm og málið dautt. Á þessum vanda er einnig önnur lausn sem er alls ekki við hæfi nema í algerum neyðartilfellum, en hún felst í því að einhver af þeim pólitísku tindátum sem starfa í efsta lagi ráðuneytisins tæki á sig ábyrgð á lekanum. Tindátinn yrði í framhaldinu um nokkra hríð í pólitísku skjóli, kælingu t.d. á flokkskrifstofu eða sambærilegri stofnun. Að hæfilegum tíma liðnum sprettur viðkomandi upp á ný í sambærilegum verkum í en í öðru ráðuneyti. Þetta er alls ekki gert nema í algerum neyðatilfellum enda ótvírætt veikleikamerki.
Hér hefur einungis verið minnst á örfá mál. Það nauðsynlegt, áður en af verður, að kanna markaðinn enn frekar þ.e. eftirspurnina. Hér er óplægður akur, arðsamur markaður, mikill bísness og öll líkindi til þess að embætti "axlandana ábyrgðar" yrði deild mjög fljótlega - hver veit? Hitt er ljóst að allir fá sitt - stjórnmálamenn og stjórendur fyrirtækja óskeikulir með öllu, eins og verið hefur og almenningur fær einhverskonar sorry og ekki síst þá undarlegur tilfinningu um að einhver sé í "raun" ábyrgur á marg- og fjölþættum "klúðrum" sem sannarlega eiga stað í stjórnsýslunni og viðskiptalífinu. Er hægt að biðja um meira?
mánudagur, 30. desember 2013
Allar íslenskar hagstærðir
Allar íslenskar hagstærðir hvíla á óverðtryggðum og afar lágum launum. Af þeim sökum er afar einfalt fyrir alla aðila aðra en launafólk að velta öllu hugsanlegu og óhugsanlegu út í verðlagið s.s ónýtri íslenskri krónu sem er í stöðugu gengisfalli, launabreytingum o.fl. Slíkt hefur verið gert og oft á tíðum afar ótæpilega. Eftir stendur kaupgjaldið sem fellur algerlega óbætt hjá garði . Af þessum sökum er lítið traust milli launafólks og Samtaka atvinnulífsins (SA) og hefur verið svo um langa hríð. SA nennir ekki lengur að eiga orðastað við launafólk í landinu eða fulltrúa þess nema í gegnum rándýrar áróðurs- og auglýsingarherferðir.
Það er vitlaust gefið, forsendur kjarasamninga byggja á ósanngirni og fullkomnu ójafnræði milli aðila. Þetta er ávísun á ævarandi átök og mun ekki breytast fyrr en forsendur kjarasamninga byggja á jafnræði milli aðila. Slíkt verður ekki gert nema með því að annað hvort afnema vísitölubindingu með öllu en ekki bara kaupgjalds eins og nú er eða vísitölubinda allar hagstæðir. Þar til slíkt verður gert er allt sem miður fer í íslenskum efnahagsmálum á kostnað launafólks og myndar þar með grundvöll hinnar grjóthörðu séríslensku láglaunastefnu.
Á slíkt er ekki bætandi. Kjarasamningar hvers meginforsendur eru þær að þeir sem litla sem enga ábyrgð bera, eða hafa sýnt, lofa bót og betrun, halda einfaldlega ekki (og hafa ekki haldið). Þetta minnir óþægilega mikið á það sem meðferðarbransinn kallar með réttu meðvirkni. Á slíku er ekki að byggja hvað varðar afkomu fólks. Það er einfaldlega vitlaust gefið og við slíkt verður ekki búið eins og verkuleikinn sannar.
Að vinda ofan af þessari vitleysu ætti að vera meginverkefni hins íslenska samfélags, ekki bara hinar afar hófstilltu forystu verkalýðshreyfingarinnar, sem að ósekju mætti vera mun beittari og agressívari í sínum aðgerðum. Verkefnið er ærið, það kemur ekkert af sjálfu sér – virk þátttaka, staðfesta og þor eru grundvallaratriði – Verkalýðshreyfingin verður ekki sterkari en fólkið, almenningur, sem hana myndar, virkni þess og áræði. Þessu óréttlæti verður einfaldlega viðhaldið svo lengi sem hagmunaaðilar komst upp með það og til þess að koma í veg fyrir slíkt þá er ekki í boði hjá launafólki að vera stikkfrí. Fyrsta skrefið er að taka þátt í atkvæðagreiðslum um kjarasamning og ekki síst láta sig þessi miklivægu mál varða með virkum hætti – ekki satt?
þriðjudagur, 10. desember 2013
fimmtudagur, 31. október 2013
mánudagur, 9. september 2013
Brauðmolahagfræði og kjarasamningar
Á næstu vikum og misserum munu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins ótt og títt kveða sér hljóðs á almennum vettvangi í þeim tilgangi að boða váleg tíðindi í íslensku efnahagslífi. Þeirri vá verði einugs mætt með því að taka snarlega upp að nýju brauðmolahagfræðina. Stefna sem að flestra mati var talið að hefði dáið drottni sínum með hruninu? (http://addigum.blogspot.com/2008/10/er-virk-fyllibytta-stjrn-s.html) Þessi kenning gengur út á það að fyrirtæki í landinu eigi helst ekki að borga neitt til samfélagsins og fái frekar ríkisaðstoð í formi skattaafsláttáttar m.m. Allt gengur þetta út að það að fyrirtæki græði sem allra mest því þá fjárfesti það og með fjárfestingum myndist einhver gróði sem þá þarf að nýta í aðrar fjarfestingar. Þegar að eigendur fyrirtækjanna eru búnir að braska með auranna eins og frekast er unnt, kaupa og selja fyrirtæki, hlutbréf og annan loftkenndan varning (jafnvel erlendis) þá verður (vonandi) til eitthvert smáræði, brauðmolarnir sem eru grundvöllur þessarar kenningar.
Brauðmolarnir, sem falla af borðum alsnægtanna, eru síðan það sem er til skiptanna þ.e. kaupgjaldið þeirra sem vinna verkin. Vandinn er hins vegar sá að brauðmolarnir eru afar fáir, ef nokkrir, þegar upp er staðið enda grundvöllur þessarar stefnu það sem að í daglegu tali er kallið hin grjótharða íslenska láglaunapólitík. Allt rask á þessu fyrirkomulagi nema ef vera skyldi í þá veru að fækka brauðmolum veldur stórfeldri vá, að sögn almennt en með réttu hvað varðar ítrustu sérhagsmuni umbjóðenda SA
Málflutningur fulltrúa á næstu misserum mun bera keim af þessu. Grein framkvæmdastjóra SA í Fréttablaðinu 24. ágúst 2013 „Verðbólgan ræðst af niðurstöðum kjarasamninga“ er klassískt dæmi um Brauðmolaretorik. Þar eru forsendur um einhverja smáræðis hækkun á launum í spám Hagstofu og Seðlabankans taldar kom öllu í vitleysu. Framkvæmdastjórinn tekur síðan dæmi um hófsamar hækkanir í nágrannalöndum okkar sem séu til fyrirmyndar, án þess þó að geta í nokkru eða gera tillögur um sambærilegt kaupgjald og þar ríkir. Sú hófsemd sem SA boðar almennt gildir auk þess eingöngu fyrir aðra en þá eins og sjá má varðandi hækkun kaupgjalds og þróun þess hjá æðstu stjórnendum fyrirtækja.
Íslenskir kjarasamningar eru, sennilega einir kjarasamninga (í hinum vestræna heimi), því marki brenndir að vera markaðir af kerfis- og lögbundnu óréttlæti. Kaupgjald sem ekki er vísitölubundið í vísitölubundnu þjóðfélagi er rót mikils vanda og gerir það að verkum að kjarasaming eftir kjarasamning velta aðilar SA/SI/SVÞ og fleiri samtök öllum kaupgjaldshækkunum beint út í verðlagið, án nokkurs eftirmála, sem væri ekki hægt ef kaupgjaldið lyti sömu reglum og annað í íslensku hagkerfi.
Að mati SA er aldrei ráðrúm til hærra kaupgjalds, ekki einu sinni á þeim tímum er efnahagur hefur verið í blóma. Íslenskir kjarasamningar hafa því miður ekki snúist um réttláta og sanngjarna skiptingu tekna samfélagsins – um það hefur fjarri því verið sátt, íslensk kjarabarátta hefur einkennst af samfeldum átökum og vantrausti gagnvart vinnuveitendum vegna langvarandi óbilgirni . Telur SA að hin grjótharða íslenska láglaunapólitík, þetta félagslega böl, sé líkleg til þess að koma íslensku efnahagslífi í gang?
Brauðmolahagfræði a la SA er einungis ávísun á áframhaldandi og síaukin ójöfnuð í íslensku samfélagi. Verkefni næstu kjarasamninga snúast ekki um slíkt . Þau snúast um sanngjörn skipti, og sanngjarna hlutdeild. Slíkt eru öllum til góða ekki síst umbjóðundum SA.
miðvikudagur, 31. júlí 2013
mánudagur, 17. júní 2013
Daðrað við þjóðernishyggju
Ég er satt best að segja nokkuð uggandi yfir þeim
leiktjöldum sem umlykja núverandi ríkisstjórn. Og þá er ég ekki að tala um hið hefðbundna pólitíska krap. Það er umgjörðin, sérstaklega sú ríka þjóðernishyggja sem sviðið er skreytt með. Táknrænir fundir
í stjórnamyndunarviðræðum á Þingvöllum,
kynning stjórnarsáttmálans í Héraðsskólanum á Laugarvatni, innblásinn ræða
forsætisráðherra á 17. júní o.fl. í
þessum dúr. Allt á þetta sér stoð í stjórnarsáttamála ríkisstjórnarinnar en þar
segir segir:
„Íslensk þjóðmenning verður í hávegum höfð, að henni hlúð og
hún efld. Áhersla verður lögð á málvernd, vernd sögulegra minja og skráningu
Íslandssögunnar, auk rannsókna og fræðslu. Ríkisstjórnin mun vinna að því að
auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innanlands
sem utan.“
Og til þessa að tryggja að svo verði þá er nánast allt sem lýtur að „þjóðmenningu“ fært
undir forræði forsætisráðherra sem verður einhverskonar
þjóðmenningarmálaráðherra.
Vinur minn og kollegi við Háskólann í Malmö sem hefur látið sig
þessi mál varða og segir einfaldlega að allar þjóðir eigi sér „sitt ómeti“ eins
og hákarl, sinn „þorramat“, sitt brennivín, allar þjóðir eiga sína fallegu
staði, sögu og tónlist. Og hann hefur
spurt, hvað gerir eitt land eitthvað sérstaklega merkilegri en annað? Og svarað er ekkert.
Að efla þjóðerniskennd fram úr hófi er leið til þess að efla
veika eða laskaða þjóðarsál, slíkt var því einkennandi í sjálfstæðisbaráttu margra þjóða,
ekki síst okkar eigin eins og við þekkjum gjörla. Slíkt var skiljanlegt í einu
fátækasta bændasamfélagi Evrópu þar sem fólk lifði í samfelldri vosbúð, fátækt
og hokri. Sögur íslenska aðalsins, Íslendingasögurnar, voru settar í samhengi
ofurmennsku og síðar meir, að undirlagi Jónasar frá Hriflu, í sögukennslubækurnar
svo að æska landsins gæti samsamað sig með fyrirmyndum og við tilveru fólks, sem þrátt fyrir allt hefur aldrei verið í boði
fyrir íslenskt alþýðufólk, hvorki þá né nú.
Nú veltir maður fyrir sér hvort eitthvert sérstakt tilefni sé til þess að endurvekja gamaldags
þjóðernishyggju, nema þá helst í „afmörkuðum“ pólitískum tilgangi? Ég gef mér
að slíkt sé raunin því aðrar ástæður eru
óbærilegar. Hinn „afmarkaði“pólitíski tilgangur því einfaldlega sá að setja
íslenska þjóðmenningu í samhengi hins sérstæða og einstæða og sem slík þá hafi Íslendingar
lítið sem ekkert að sækja út fyrir landssteinanna (nema í hlutverki
einhverskonar útrásarvíkinga) og hvað þá til Evrópu. Evrópusambandið er hinn stóri óvinur,
ógnvaldur, hin ytri vá, sem hefur eftir miklu að slægast hérlendis, ekki síst hinu afar
dýrmæta sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, a.m.k. að sögn ýmissa þeirra sem nú blása upp
einhvern þjóðernisrembing. Það er fátt sem sameinar betur í slíkri baráttu og
„góður“ óvinur. Hið vonda ESB og vondu útlöndin (svo ekki sé minnst á Alþjóða gjaldeyrissjóðinn) sem stilltu okkur upp við vegg og gerðu við okkur vonda samninga vegna útrásarvíkinga sem hinn almenni Íslendingur ber enga ábyrgð á. Þetta spilverk allt saman getur því
miður orðið jarðvegur hins algera illgresis og leitt okkur í hinar mestu
ógöngur, eins og sagan ætti að hafa kennt okkur.
Vandinn er hins vegar sá að þjóðernisumræða einskorðast ekki
við eitt afmarkað mál. Hin hliðin á
þessum miklu þjóðernisáherslum er nefnilega grafalvarlegur og fellst í þeim
skilboðum sem berast þeim fjölmörgu Íslendingum sem ekki geta rakið ættir
sínar mann fram af manni hérlendis og eru einfaldlega, í allra stystu útgáfu, þessi: Þið eruð ekki hluti af
þjóðinni. Skilaboð sem eru
algerlega ósæmandi í því fjölmenningarsamfélagi sem við lifum í og þrífst með ágætum í hinum vestræna heimi.
Að ætla sér að byggja einhverja pólitíska þrætubókarlist á
íslenskum þjóðrembing og drambi er algert glapræði. Einstakt íslenskt atgervi og sérstök
viðskiptagreind á heimsvísu var að sögn útrásarvíkinga forsenda farsældar í
viðskiptum …eða hitt þó heldur! Á því
eigum við að læra, fremur en að endurtaka.
Pólitík og rík þjóðernishyggja er baneitruð blanda og ekki til annars
falin en að auka sundurlyndi þeirra sem þetta land byggja. Daður við þjóðernishyggju kann ekki góðri lukka að stýra, ég hvet stjórnvöld eindregið til að ganga hægt inn um gleðinnar dyr í þessum efnum
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)